Rökkur Reykjavík er íslensk hönnun sem selur gæðafatnað fyrir fólk sem er óhrætt við að gera kröfur. Við leggjum áherslu á sniðagerð og að öll smáatriði í fatnaðinum séu úthugsuð. Við viljum að fatnaður gefi okkur frelsi til að vinna verkefni dagsins, líða vel og líta vel út. Efnin veljum við af mikilli gaumgæfni og reynum að nota efni sem auðvelt er að meðhöndla og þvo.
Við erum með sterk gildi þegar kemur að okkar rekstri og trúum því að þessi gildi séu í takt við gildi kúnnanna okkar en þau eru heiðarleiki, gagnsæi og lágmarka sóun. Við vinnum eingöngu með fagaðilum og vöndum vinnubrögð í einu og öllu.
Okkar sérstaða er sú að við framleiðum allt í takmarkuðu magni svo líkurnar á því að þú sért í því sama og vinkona þín, eru litlar. Við munum passa að halda framleiðslu í algjöru lágmarki sem að gerir hverja flík einstaka og lágmarkar alla sóun.
Lovísa Tómasdóttir, eigandi fyrirtækisins, er klæðskerameistari að mennt og hefur unnið við klæðskurð í um áratug. Hún tók starfsnámið sitt í Ellu ehf. en það fyrirtæki var íslenskt fatamerki sem seldi gæðafatnað á konur. Þar lærði hún fyrst um hugtakið „Slow Fashion“ og hefur hún alla tíð tileinkað sér þau gildi sem tilheyra því hugtaki.
Hún hefur sinnt mörgum sérverkefnum og sér í lagi fyrir sviðslistafólk. Hún hefur saumað á tónlistarfólk, dragdrottningar og dansara. Að vinna með skapandi fólki ýtir manni út fyrir þægindarammann og gerir mann að betri klæðskera.
Að baki Rökkur Reykjavík stendur ásamt Lovísu, Helga Hrönn Karlsdóttir. Helga er lögfræðingur að mennt en hefur alla tíð haft brennandi áhuga á tísku og fatnaði. Þær stöllur eru æskuvinkonur og hefur alltaf verið draumur þeirra að stofna fyrirtæki saman. Það lá því í augum uppi að standa saman að merki eins og Rökkur Reykjavík.
—